Lett-Tak þakeiningar

Ný hugsun – nýjir möguleikar

Með nokkrum rétti má halda því fram að tæknimönnum hætti til að festast í hjólfari vanans. Útveggir eru ennþá einn og hálfur múrsteinn að þykkt og ekki er langt síðan það þótti hin mesta goðgá að tala um óloftræst þök. Tregðulögmálið ríkir þótt ný byggingarefni feli í sér nýja möguleika.
Í byrjun áttunda áratugarins var það byltingarkennd hugsun að láta sér detta í hug að líma saman stál og tré og gera úr því þakeiningu, stappfulla af steinull, og það sem meira var, að sleppa hinni skyldugu loftrás á milli einangrunar og ytri klæðningar.

Sagan og hugmyndin

Norðmaðurinn Dr. Jens Fredrik Larsen vann að þróun Lett-Tak þakeininganna við tækniháskólann í Stokkhólmi á árunum 1970–1975 og fékk sænsku iðnaðarverðlaunin árið 1978.

Hann lýsir hugmyndinni þannig: „Létt-þakið er, andstætt hefðbundnum þökum, byggt úr mörgum samverkandi efnum. Þetta gerir mögulegt að hámarka efnisnotkun út frá burðarþoli og hlutverki einstakra byggingarhluta.
Í sem stystu máli er þakeiningin gerð úr zinkhúðuðum stálskúffum sem taka tog í neðri brún. Efri flans er gerður úr krossviði og lektum sem eru 2 x 3 tommur en þær brjóta einnig kuldabrú. Nær öll breidd krossviðarins er reiknuð með í burðarþolinu og myndar auk þess ágætt undirlag fyrir þakefnið. Einangrunin (steinull) kemur í og á milli stálskúffanna og einingarþykktin nýtist að fullu.“
Ekki er að orðlengja að hér var komin uppskrift að þakeiningu sem hefur frábært burðarþol og mjög góða einangrunar-, hljóð- og stífingareiginleika.
Einingarnar eru léttar miðað við burðargetu eins og nafnið bendir til og möguleg lengd takmarkast aðallega af breidd verksmiðjuhússins sem þær eru gerðar í og af þeim flutningstækjum sem flytja þær á byggingarstað.

Léttar og spennandi

Á góðu ári renna 250 þúsund fermetrar þakeininga út úr verksmiðju Lett-Tak a/s í Larvík í Noregi.
Einingarnar vega aðeins 33–50 kg/m2 og spanna allt að 14,4 metrum.
Einangrunargildi þeirra er um 0,19–0,13 W/(m2·k) og hljóðdempun góð (RW-gildi 48–56 db).
Þær hafa brunaþol allt að REI 60 eftir gerð og þakflöturinn reiknast sem stíf skífa.
Lett-Tak einingarnar geta verið allt að 35 fermetrum hver og koma tilbúnar að utan og innan frá verksmiðjunni. Hægt er að setja upp 400–600 fermetra á dag á byggingarstað.
Hér á landi kom strax fram krafan um þol við svignun upp á við en þá er botn stálskúffunnar styrktur til að taka þrýsting í neðri brún einingar. Þetta reyndist auðvelt að gera t.d. með því að líma krossvið í botn skúffunnar.

Vottun RB

Lett-Tak þakeiningarnar fengu vottun Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins í mars árið 2000 fyrir tiltekin notkunarsvið. Vottunin var endurútgefin árið 2006 um leið og notkun eininganna yfir sundlaugar var rýmkuð. Sjá töflu 1.

Í tengslum við vottunina fór fram sérstök athugun á rakabúskap eininganna sem var framkvæmd af Jóni Viðari Guðjónssyni hjá Línuhönnun.

Einnig var gerð athugun á burðarþoli þeirra af Þorsteini Magnússyni verkfræðingi en verkfræðistofa hans annast útreikning fyrir hvert einstakt þak.
Hallgrímur Axelsson, Jón Viðar Guðjónsson og Þorsteinn Magnússon undirbjuggu vottun Lett-Tak þakeininganna. Myndin er tekin framan við hús Ístaks við Engjateig.


Tafla 1   Val Lett-Tak eininga með tilliti til umhverfisaðstæðna
RakaflokkurMeðaltals hlutfallsraki inni miðað við 20°C (%) Dæmi um tegund húsnæðis Lett-Tak þakeiningar þakgerð
A <25 Skrifstofur
Verslanir
Þjónustuhúsnæði
„Þurrt“ lagerhúsnæði I,II, III, IV, VI
B 25-35Íbúðarhús
„þurr“ iðnaður
Skólar
Íþróttahús I, III, IV*, VI
C 35-45 „Votur“ iðnaður
Böð, búningsklefarV*, VI*
D 45-55 Sundlaugar V*, VI*

* þegar unnið er við þakgerð IV í rakaflokki B, þakgerð V og VI í rakaflokki C og þakgerð VI í rakaflokki D skal hafa sérstakt óháð eftirlit með frágangi rakavarnar. Þegar unnið er við þakgerð V í rakaflokki D skal gera þakið loftþétt með samtengingu dúks og ofurrakavarnar.

Þakgerðir (uppbygging eininga)
Nr. Þéttilag Rakavarnarlag
I PVC-dúkur, Protan SE þakdúkur Þolplast 0,2 mm
II Eitt lag asfaltdúkur, 2kg/m2, undir þakstáli á ásum Þolplast 0,2 mm
III Eitt lag asfaltdúkur, 2kg/m2, undir þakstáli á ásum Aukin rakavörn
IV Tvö lög asfaltdúkur, allt að 8,5 kg/m2 Aukin rakavörn
V PVC-dúkur, Protan SE-þakdúkur Aukin rakavörn
VI Útloftað þak, þéttilag óskilgreint** Aukin rakavörn

** Lett-Tak-eining með krossviðsþekju. Þar á er staðbyggt útloftað þéttilag, t.d. dúkur, pappi eða málmur.

Burðarþol þakeininganna er reiknað fyrir hverja byggingu, sjá töflu 2.

Tafla 2
Burðarþol og stífleiki Lett-Tak-eininga (pr.metra af breidd þakeiningar).
Gerð (1) Þykkt (2) Burðarþol; móment og skerkraftur Stífleiki
h/t H +M (3) +M (4) –Mst (5) T +EI –EI –EIst
mm mm kNm/m kNm/m kNm/m kN/m kNm2/m kNm2/m kNm2/m
130/1,1 216 27,7 -5,5 -35,5 20,0 2.700 710 2.785
180/1,1 266 35,3 -6,2 -45,8 20,0 4.312 1.018 4.350
210/1,1 296 40,4 -6,6 -50,8 20,0 5.467 1.225 5.405
230/1,1 316 43,7 -6,9 -54,8 20,0 6.336 1.388 6.205
290/1,1 376 54,0 -8,2 -67,6 20,0 9.465 1.954 9.069
310/1,1 396 57,8 -8,5 -71,8 20,0 10.538 2.158 10.004
360/1,1 446 59,0 -9,5 -67,3 20,0 12.837 2.728 11.769
360/1,5 446 78,0 -17,2 -85,4 37,9 15.491 4.554 13.729

Skýringar við töflu 2:
(1) Hæð stálskúffu/stálþykkt
(2) Sbr. mynd 1.
(3) Tog í neðri brún (skúfubotni)
(4) Tog í efri brún (krossviði)
(5) Tog í efri brún (krossviðs), skúffubotn styrktur með 16mm krossviði
(6) Botnbreidd skúffu 410 mm

Þegar reikna skal önnur þversnið en hér eru talin skal nota eftirfarandi tölur um stálgæði og stífleika:
Stál: fty = 300 Mpa og E = 2,1 x 105 Mpa
Tré : fcod = 17,6 Mpa og E = 11000 Mpa
Krossviður: ncod = 117,8 N/mm og EA0 = 89000 N/mm fyrir 16 mm Vänerply P30

Lett-Tak hér á landi

Hér á landi voru Lett-Tak þakeiningarnar fyrst notaðar á verslunarhúsið Kringluna og síðar á fjölmörg hús af ýmsum gerðum, bæði verslunar-, iðnaðar-, skóla- og íbúðarhús. Af öðrum byggingum má nefna:

• Iðnskólann í Hafnarfirði
• Glerártorg, verslunarmiðstöð á Akureyri
• World Class í Laugardal
• Sundmiðstöðina í Laugardal
• Sæplast á Dalvík
• Síðuskóla á Akureyri
• Toyota á Akureyri
• Heilsumiðstöð að Reykjalundi
• Nýbyggingu Ölgerðarinnar
• Íþróttahúsið Smárann í Kópavogi
• Stekkjarás, leikskóla í Hafnarfirði
• Fyrirlestrarsali Kennaraháskólans í Reykjavík



Burðargetan er áskorun

Fyrstu Lett-Tak þökin hér á landi spenntu yfir þessa hefðbundnu 5–7 metra en fljótlega komu fram óskir hönnuða um einingar sem næðu yfir 8–9 metra og jafnvel lengri. Á nýju skrifstofuhúsi Ístaks við Engjateig eru lengstu einingarnar 12 metrar og 13 metra langar einingar eru þegar á teikniborði hönnuða. Það má því segja að íslenskir hönnuðir hafi tekið áskorun.

Sjá einnig www.Lett-tak.no

Sjá Árbók VFÍ/TFÍ 2004 bls. 167-171.
Kíma ehf. | Sími: 660 85 66 / 618 18 36 | Netfang: kima@kimaehf.is